Karl Einarsson er fæddur og uppalinn í Breiðholtinu og verður þrítugur í lok október. Hann útskrifaðist úr tölvunarfræði árið 2017 og hóf störf með skólanum hjá Rue de Net árinu áður. „Ég vissi að vísu ekkert um Rue de Net þegar ég sótti um starf hjá félaginu, en á þeim tíma var ég farinn að velta fyrir mér hvað tæki við eftir skólann,“ segir Karl, sem er þjónustustjóri hjá Rue de Net Reykjavík.

„Ég sat í heita pottinum í Sporthúsinu á spjalli við vinkonu mína og sem þá þegar var hjá Rue de Net. Hún hvatti mig til að sækja um, sem ég og gerði og hér erum við,“ segir Karl, ánægður með sitt hlutskipti.  Hann byrjaði sem forritari en varð síðar hópstjóri og fór að stýra stærri og stærri verkefnum og innleiðingum.

„Þegar Rue de Net stækkaði enn frekar varð ég sviðsstjóri viðskiptakerfa og nú síðast tók ég við hlutverki þjónustustjóra, sem er klárlega mjög spennandi áskorun. Það sem ég geri í starfi mínu hjá Rue de Net er að aðstoða og þjálfa starfsmenn sem heyra undir viðskiptakerfissvið. Einnig áætla ég tíma og kostnað sem felast í innleiðingum og uppfærslum á Business Central, og hanna útfærslur og samþættingar við hin ýmsu kerfi hjá viðskiptavinum okkar,“ útskýrir Karl, sem hefur fengið mörg tækifæri til að vaxa í starfi og fengið stigvaxandi ábyrgð í gegnum árin.

„Ég hef alltaf sóst eftir stærri áskorunum og hef gaman af því að takast á við krefjandi verkefni. Það væri lygi ef ég segði að starfið hefði alltaf verið auðvelt, enda stundum mikill hraði, viðskiptavinir hinum megin við borðið og lítið sem má út af bregða. Það er hins vegar ekki sjálfgefið að fá þessi tækifæri og ég er mjög ánægður með vegferðina eins og hún hefur verið hingað til. Það má heldur ekki gleyma viðskiptavinum okkar, þeir eru stór hluti af þessu öllu. Ég hef fengið að fara inn í sum af stærstu fyrirtækjum landsins, tekið mikinn þátt í þeirra vegferð, og eignast marga góða kunningja hér og þar um bæinn, sem mér þykir mjög vænt um.“

Þjónusta Rue de Net

Rue de Net var stofnað á eyjunni Jersey í Ermarsundi árið 2003. Stofnendur voru tveir; Alfred B. Þórðarson og Aðalsteinn Valdimarsson. Félagið stofnað utan um samþættingarlausn, nánar tiltekið samþættingu milli vefs og Navision.

„Nafnið Rue de Net stendur fyrir akkúrat það sem verið var að gera; að brúa bilið á milli vefs og Navision. Götuheiti í Jersey byrja sum á „Rue de“ og því varð til Rue de Net, eða Netstrætið,“ útskýrir Karl um vel til fundna nafngift fyrirtækisins.

Þeir Alfred og Aðalsteinn seldu vöruna um allan heim í nokkur ár, en þegar þeir komu til Íslands kölluðu íslenskir viðskiptavinir eftir þjónustu þeirra, og úr varð Rue de Net Reykjavík sem sinnti og sinnir enn allri ráðgjöf og þjónustu við Business Central, (sem áður hét Dynamics NAV og Navision) og LS Central (sem hét LS Nav frá LS Retail).

„Rue de Net hefur stækkað jafnt og þétt í gegnum árin, en við höfum nánast alltaf verið litli aðilinn á markaðnum. Við viljum líka gera hlutina öðruvísi, persónuleg nálgun hefur ávallt verið okkar sérsvið, og við leitumst mjög eftir því að kynnast viðskiptavinum okkar vel og þekkja þarfir þeirra, til að ráðgjöfin verði sem best. Til að mynda fær hver viðskiptavinur úthlutað viðskiptastjóra sem öll hans samskipti fara í gegnum. Viðskiptastjórinn lærir fljótt mjög vel inn á viðskiptavininn og getur því veitt heiðarlega og góða ráðgjöf um hvað hentar viðskiptavininum best,“ greinir Karl frá.

Viðskiptakerfi í skýinu

Fyrir tæpum þremur árum hóf Microsoft að bjóða upp á Dynamics 365 Business Central sem SaaS-lausn, en það útleggst sem Software as a Service. Á íslensku þýðir þetta hugbúnaður sem þjónusta. Það þýðir að Microsoft annast hýsingu á kerfinu, ásamt öllum uppfærslum, viðhaldi og afritatöku. „Við hjá Rue de Net urðum strax mjög hrifin af þessari nálgun Microsoft, enda mikið hagræði og þægindi falin í henni. Viðskiptakerfið er nú aðgengilegt hvar og hvenær sem er, og áður þekkt vandamál eins og tengingar, rekstur kerfisins og annað slíkt heyrir sögunni til,“ upplýsir Karl.

Hann segir einn af helstu kostum þessarar tilhögunar vera þann að viðskiptavinir séu nú alltaf í nýjustu útgáfu.  „Microsoft uppfærir kerfið í hverjum mánuði, og tvisvar á ári er um stærri uppfærslur að ræða. Í gamla fyrirkomulaginu var alkunna að uppfærslur voru tímafrekar, erfiðar og kostnaðarsamar. Öll vinna við Microsoft-uppfærslur er innifalin í mánaðargjöldum, svo enginn óvæntur kostnaður kemur til vegna þess,“ segir Karl.

Áður þurfti líka að leggja í töluverða vinnu til að fá inn nýja staðlaða virkni.  „Viðskiptavinir áttu alltaf rétt á þessari nýju virkni en þurftu sjálfir að leggja út kostnað til að fá hana inn í sitt kerfi. Í dag kemur þessi nýja virkni inn sjálfvirkt með mánaðarlegu útgáfunum, svo enginn viðbótarkostnaður fer í að fá virknina inn. Það er mjög skemmtilegt fyrir viðskiptavini að sjá hlutina bara birtast allt í einu í viðmótinu, daginn eftir sjálfvirka uppfærslu frá Microsoft. Einnig er kostnaður við kerfið í dag miklu fyrirsjáanlegri en áður, sem að mínu mati er ótvíræður kostur. Þar að auki eru öll leyfi seld sem mánaðargjöld og því auðvelt að skala upp og niður eftir þörfum, sem er sérstaklega mikilvægt hjá fyrirtækjum í árstíðabundnum rekstri, ólíkt því sem áður var. Kostnaðurinn getur þannig verið minni þá mánuði sem veltan er lítil, en þegar umfangið verður meira er auðvelt að skala upp með lítilli fyrirhöfn.“ útskýrir Karl og heldur áfram:

„Uppitími og öryggi hjá Microsoft eru einnig með því besta sem gerist í heiminum í dag. Microsoft hefur varið gríðarlegum fjármunum í öryggismál ásamt því að lofa 99,9 prósenta uppitíma. Þarna eru þeir á heimavelli og fáir sem geta keppt við þessi gæði.“

Ný tækni

En hvernig er þetta mögulegt, spyrja sig kannski sumir, þekkjandi hina gömlu tíma?

„Samhliða þessum breytingum hjá Microsoft, þegar Dynamics NAV varð að Business Central, var kynnt til sögunnar nýtt forritunarmál og ný aðferð til að forrita í kerfinu. Í stað þess að fara inn í kerfið og breyta því sjálfu, skrifum við nú svokallaðar viðbætur (e. extensions) sem liggja utan á kerfinu. Við breytum því ekki lengur kerfinu sjálfu heldur smíðum utan á það. Microsoft uppfærir svo kerfið, en við berum ábyrgð á því að okkar viðbætur haldi í við þeirra þróun,“ skýrir Karl.

Rue de Net er brautryðjandi í að skrifa viðbætur fyrir Business Central og strax árið 2017 voru fyrstu vörurnar tilbúnar og aðgengilegar á markaðstorgi Microsoft.

„Við byrjuðum mjög snemma að skoða þessa nýju tækni og höfum í dag tileinkað okkur hana alfarið. Allar okkar vörur eru í viðbótum og allar sérbreytingar sem við gerum á Business Central eru það líka. Að mínu mati er mikilvægt að fyrirtæki sem ekki eru komin í skýið byrji strax í dag á því að koma sínu kerfi yfir í viðbætur, því það gerir á endanum flutninginn upp í skýið svo miklu einfaldari.“

Karl nefnir einnig nýja leið fyrir kerfi til að eiga samskipti sín á milli.

„Azure Service Bus er nokkurs konar skilaboðaskjóða sem keyrir í skýinu. Með notkun hennar getur eitt kerfi sent skilaboð til skjóðunnar þegar því hentar og önnur kerfi geta sótt þau, ef og þegar þeim hentar. Þannig geta þessi kerfi átt samskipti án þess að vera háð hvert öðru. Þetta er ný leið til að eiga samskipti og kemur í staðinn fyrir að samtengja kerfi með vefþjónustum, þar sem kerfin eru mjög háð hvert öðru. Það má sem sagt segja að þetta slíti kerfin í sundur, hvert kerfi sinni sínu hlutverki og skili af sér gögnum til skjóðunnar, án vitneskju um hvaða önnur kerfi taki við þeim og hvernig gögnin eru notuð,“ segir Karl og bætir við „Við höfum innleitt Azure Service Bus í fjölda verkefna hjá okkur við mjög góðan orðstír.“

AppSource-markaðstorgið – frábær nýjung

Allir þekkja markaðstorgin Play Store fyrir Android og App Store fyrir Apple.  „AppSource er ekki ósvipað markaðstorg, nema fyrir Business Central. AppSource er samansafn viðbóta sem hugbúnaðarfyrirtæki um allan heim hafa smíðað fyrir Business Central og sem viðskiptavinir geta keypt inn í sín kerfi,“ upplýsir Karl. Hann segir íslenska notendur hingað til hafa verið tiltölulega háða íslenskum þjónustuaðilum þegar kemur að sérlausnum og viðbótum við kerfið. „Íslenskir þjónustuaðilar hafa ýmist þurft að leita erlendis til að finna lausnir eða smíða þær sjálfir. Með tilkomu AppSource er hægt að leita að lausnum á miðlægum stað. Lausnirnar skipta nú þegar hundruðum, og bætist í á degi hverjum. Því má með sanni segja að AppSource hafi stækkað heim Business Central töluvert. Þetta er einn af stóru kostum Business Central, og að mínu mati ættu notendur kerfisins ávallt að leita fyrst í AppSource þegar einhverja lausn vantar, í stað þess að hlaupa strax til og láta sérsmíða hana fyrir sig.“

Síðasta uppfærslan

Það eru án efa fyrirtæki á markaðnum í dag sem eru og hafa verið lengi með viðskiptakerfi sitt í gamalli útgáfu og hugsa til þess að erfitt verði að færa sig yfir í nútímann. En hvernig komast fyrirtæki á þennan nýja stað?

„Stutta svarið er að fyrirtækin þurfa að fara í gegnum eina uppfærslu í viðbót, upp í nýjustu útgáfu af Business Central, en eftir það er leikur einn að koma kerfinu fyrir hjá Microsoft. Þessi síðasta uppfærsla þarf þó ekki að vera ein stór sorgarsaga; það er vel hægt og raunar mjög mikilvægt, að skipuleggja hana vel og sjá tækifærin í nýrri útgáfu. Mjög skynsamlegt er að nýta tækifærið til að hagræða og einfalda, en við hvetjum öll fyrirtæki til að skoða hvort ekki sé hægt að nota staðlaðar lausnir í stað sérsmíða. Oft eru líka hlutir sem áður voru sérskrifaðir orðnir staðlaðir í nýrri útgáfum. Auðvitað er ekki allt til, t.d. tengingar við hin ýmsu kerfi sem fyrirtæki nota, en þarna koma sérsmíðuðu viðbæturnar sterkar inn,“ svarar Karl.

Framtíðarsýn Rue de Net

Þegar litið er til framtíðar sér Karl ekkert annað gerast en að skýjalausnir taki smátt og smátt yfir, jafnvel hraðar en fólk telur.

„Við hjá Rue de Net ætlum okkur að nýta þessa nýjustu tækni til hins ítrasta og erum farin að horfa á erlenda markaði. Allar okkar vörur eru til sölu í AppSource og nú erum við einnig farin að bjóða þjónustu og ráðgjöf í AppSource. Það þýðir að vörurnar okkar eru ekki það eina sem erlendir viðskiptavinir geta keypt frá okkur í AppSource, heldur einnig þjónustan,“ greinir Karl frá.

Sjálfvirknivæðing er einnig fyrirferðarmikil í framtíðarsýn Rue de Net.  „Markmið okkar hefur ávallt verið að nýta tæknina til góðs, og auðvelda og létta undir í starfsemi fyrirtækja. Krafan um sjálfvirknivæðingu er alltaf að verða meiri og meiri, hraðinn í nútímasamfélagi er mikill og því nauðsynlegt að geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum. Þar spilar tæknin lykilhlutverk. Það er svo mikilvægt að mismunandi hlutar starfsemi fyrirtækja tali vel saman og þar kemur Microsoft sterkt inn með Power Platform-i sínu. Ég sé því fyrir mér að við munum nýta Power Platform miklu meira þegar fram líða stundir,“ bætir Karl við.

„Fyrir Business Central er endapunkturinn nokkuð skýr: Á endanum munu allir keyra sitt viðskiptakerfi í skýinu. Þessi vegferð er löngu hafin, en margir okkar viðskiptavina eru nú þegar komnir í skýið og fleiri og fleiri bætast við í hverjum mánuði. Þessi þróun heldur því bara áfram.“

Taktu skrefið upp í skýið – því fyrr því betra

Að mati Karls ættu öll fyrirtæki að taka skrefið upp í skýið, og það fyrr en seinna. Einfaldlega til að geta notið góðs af öllu því sem skýið hefur upp á að bjóða.  „Sumir velta kannski fyrir sér hvort þetta sé ekki bara skref sem minni fyrirtæki geta tekið í dag, en það er síður en svo. Fyrstu innleiðingarnar voru hjá minni fyrirtækjum en nú eru stærri fyrirtæki líka búin að taka skrefið. Engin fyrirtæki eru of lítil né stór fyrir skýið,“ segir Karl.

„Það er svo margt sem verður einfaldara og betra í skýinu. Fyrirsjáanleiki og skalanleiki sem ekki hefur áður þekkst er nú í boði fyrir öll fyrirtæki. Aðgengi verður einnig svo miklu betra, sem er mjög mikilvægt í nútíma vinnuumhverfi, eins og við höfum öll kynnst síðastliðna átján mánuði. Við hjá Rue de Net höldum því ótrauð áfram á skýjavegferð okkar og hvetjum fyrirtæki til að byrja að hugsa til framtíðar. Við höfum einsett okkur að styrkja framsækin fyrirtæki á þeirra vegferð og erum til í spjallið hvenær sem er.“

Fréttin er tekin af síðu Fréttablaðins